Kvartettinn Kurr – Franskir söngvar
29. July, 2020
Á lokatónleikum sumarsins í Bláu kirkjunni mun Kvartettinn Kurr flytja Franska söngva. Tónleikarnir hefjast kl. 20:30.
Kvartettinn Kurr hefur starfað um árabil en hann skipa Valgerður Guðnadóttir söngvari, Helga Laufey Finnbogadóttir píanóleikari, Guðjón Steinar Þorláksson sem leikur á kontrabassa og Erik Quick slagverksleikari. Kvartettinn hefur komið fram á hinum ýmsu tónleikum og tónleikaröðum eins og Tíbrá í Salnum, á Gljúfrasteini, Listasafni Sigurjóns, Bláu Kirkjunni á
Seyðisfirði og Tónlistarmiðstöð Austurlands svo fátt eitt sé nefnt. Kvartettinn hefur flutt mjög fjölbreytta efnisskrá með innlendu og erlendu efni auk frumsaminnar tónlistar úr smiðju Helgu Laufeyjar Finnbogadóttur. Kvartettinn hefur fengist við mismunandi stíltegundir í tónlist svo sem jazz, þjóðlög, tangóa og dægurtónlist í eigin útsetningum, og alls staðar hlotið lofsamlega dóma og undirtektir.
Tónleikarnir í Bláu kirkjunni munu innihalda franska tónlist úr ýmsum áttum í splunkunýjum útsetningum. Tónleikadagskráin er lifandi og leikræn með frásögnum og fróðleik, m.a. um franska menningu.
Dagskráin inniheldur meðal annars þekktar perlur úr smiðju Charles Trenet, Michel Legrand og Edith Piaf. Tónleikagestir fá tækifæri til að syngja með.