Kjarval á Austurlandi – sýning
14. September, 2024 - 3. November, 2024
Sýningin Kjarval á Austurlandi verður opnuð í Sláturhúsinu á Egilsstöðum næstkomandi laugardag. Sýningin er hluti af stærra verkefni sem þrjár menningarstofnanir á Austurlandi standa að.
Sýningin er sett upp af Minjasafni Austurlands og fjallar um líf Kjarvals og tengsl hans við Austurlands. Þar skipa persónulegir hlutir listamannsins sem varðveittir eru á Minjasafninu stóran sess og leitast er við að varpa ljósi á persónuna Kjarval og tengja saman verk hans og umhverfið sem þau eru sprottin úr.
Í tengslum við sýninguna og BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi, mun Sláturhúsið setja upp leiksýninguna Kjarval í samstarfi við Borgarleikhúsið síðar haust. Þar er um að ræða fjölskylduleikrit sem fyrst var sett upp í Borgarleikhúsinu árið 2021 en í því er dregin upp mynd af Kjarval, drengnum, manninum og málaranum. Ákveðnum árgöngu grunnskóla á svæðinu verður boðið á leiksýninguna og þeim verður einnig boðið að nýta fræðsluverkefni sem sett hefur verið saman í tengslum við sýningarnar.
Þriðji og síðasti hluti verkefnisins verður svo í höndum Skaftfells á Seyðisfirði en þar er ætlunin að setja upp sýningu með verkum Kjarvals sumarið 2025.
Verkefnastjóri og höfundur sýningarinnar Kjarval á Austurlandi er Hanna Christel Sigurkarlsdóttir, grafísk hönnun var í höndum Ingva Arnar Þorsteinssonar og sýningin er sett upp í samstarfi við starfsfólk Sláturhússins.
Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands, Safnasjóði, Múlaþingi, Landsvirkjun, Alcoa, Atlantsolíu, MVA og List fyrir alla.
Sýningin verður formlega opnuð laugardaginn 14. september kl. 16:00.
Aðgangur er ókeypis – verið öll velkomin!