Innsævi: Rám Myndlistarsýning

16. June, 2024

Myndlistarkonan Svanlaug Aðalsteinsdóttir vinnur málverk upp úr vísum eftir afa sinn og nefnir hún sýninguna RÁM sem er skammstöfun úr nafni hans, Ragnar Á. Magnússon. Svanlaug vinnur verkin með blandaðri tækni í akrýl, olíu, og klippimyndum og köldu vaxi. Innblásturinn sækir hún í vísurnar sem fundust í gamalli dagbók frá árinu 1977 en þær eru virkilega fallega skrifaðar og framkalla djúpar tilfinningar. Það sem vakti áhuga hennar í vísunum var skrift afa hennar og var hún staðráðin í að reyna gera eitthvað skemmtilegt úr þeim.
Á opnun sýningarinnar verður lifandi tónlist flutt af dóttur Svanlaugar, Evu Björgu Sigurjónsdóttir en ásamt Evu mun Kári Kresfelder tónlistarmaður koma fram. Eva og Kári munu flytja lög frá 8. og 9. áratugnum sem tengjast Skagafirðinum þar sem Ragnar ólst upp.
Sýningin verður í Þórsmörk og opnun hennar fer fram sunnudaginn þann 16. júní kl. 15:00. Á sama tíma opnar einnig sýningin „Eitthvað Fallegt“ eftir listakonuna Sædísi. Sýningin verður opin til 24. júní á virkum dögum frá 14:00 til 17:00 en opnunartími um helgar er auglýstur sérstaklega á Facebooksíðu Innsævis.