Innsævi: Eitthvað fallegt myndlistasýning

16. June, 2024

Sædís er ung listakona sem ólst upp í Neskaupstað en hefur búið á höfuðborgarsvæðinu frá unga aldri. Undanfarið ár hefur Sædís unnið í myndlistarsýningunni sinni „Eitthvað Fallegt“ þar sem hún sýnir myndir unnar úr fíngerðu garni á pappír. Innblásturinn er sóttur í fegurð íslensku náttúrunnar en markmiðið hennar með listinni er að reyna fanga ögn af þeirri fegurð í annað form. Sædísi finnst því vel við hæfi að sýna myndirnar fyrst á Innsævi í firðinum þar sem fegurðin er eins og engin önnur.
Þrátt fyrir að Sædís hafi búið lengi á höfuðborgarsvæðinu verða hjartarætur hennar og heimili þó alltaf í Norðfirðinum fagra. Listin hefur fylgt henni eins lengi og hún man en þegar hún hóf myndlistarnám í menntaskóla stækkaði áhuginn. Sædís byrjaði að flúra á svipuðum tíma og hún hóf námið en svo bauðst henni lærlingsstaða á Moonstone Tattú stofunni árið 2021 og setti námið til hliðar en þar hefur hún starfað síðan sem húðflúrari.
Sýningin „Eitthvað Fallegt“ verður í Þórsmörk og opnun hennar verður sunnudaginn 16. júní kl. 15:00. Á sama tíma mun sýningin RÁM eftir Svanlaugu Aðalsteinsdóttur opna í Þórsmörk. Sýningin verður opin á virkum dögum frá 14:00 til 17:00 en opnunartími um helgar er auglýstur sérstaklega á Facebooksíðu Innsævis.