Innsævi: Chögma ásamt Social suicide

13. July, 2024

Austfirska progressive-metal hljómsveitin CHÖGMA heldur spennandi tónleika í fyrsta sinn í Skrúði á Fáskrúðsfirði, sem er heimabær Elísabetar Markar söngvara hljómsveitarinnar. Hljómsveitina skipa einnig Stefán Ingi Ingvarsson sem bakrödd og bassa-og gítarleikari, Kári Kresfelder á hljómgervil og bassa, Jónatan Emil Sigþórsson trommuleikari, og Jakob Kristjánsson, gítarleikari og stofnandi hljómsveitarinnar. Tónlist hljómsveitarinnar spannar allt frá downtúnuðu þungarokki, til tæknilegs djass, og yfir í mýkri tóna. Tvöfaldar bassatrommur á ofurhraða, dúndrandi bassalínur, öskur og falsettur, og gítarsóló og einkennandi ,,chugg” CHÖGMA munu fylla salinn og eyru áhorfenda.
CHÖGMA hefur á einu ári komið sér vel fyrir í Austfirsku tónlistarlífi og menningu en hafa meðal annars náð að spila á- og hreppa þriðja sæti á Músíktilraunum 2024. Komdu, hlustaðu, og upplifðu CHÖGMA.
Social Suicide er nýtt íslenskt punk band sem mun einnig koma fram á tónleikunum. Meðlimir eru þeir Ólafur Kári Ólafsson, Andri Eyfjörð og Haukur Þór Valdimarsson. Óla dreymdi um að vera í pönk bandi en þekkti engan hljóðfæraleikara með sama drauminn en eitt kvöldið kynntist hann Andra og þeir klikkuðu strax og byrjuðu að semja. Svo fengu þeir Hauk úr hljómsveitinni Blóðmör til að fylla í skarðið sem bassaleikari, en fljótlega eftir það varð Haukur meðlimur Social Suicide, en nú vinna þeir að fyrstu plötunni sinni.
Það kostar 2.500 krónur inn á tónleika á Innsævi en miðaverði er stillt í hóf. Frítt er á tónlistarviðburði fyrir 16 ára og yngri.