Hnikun

Sláturhúsið

3. September, 2022 - 1. November, 2022

Laugardaginn 3. september opnar sýningin Hnikun með verkum eftir myndlistarmennina Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur og Þórdísi Jóhannesdóttur.

Þann 3. september opnar Sláturhúsið á ný eftir gagngerar endurbætur. Opnunarsýning hússins verður sýningin Hnikun.

Á sýningunni munu þær Ingunn Fjóla og Þórdís sýna ný verk unnin út frá sögu Sláturhússins sem þær tvinna saman við hugmyndir um skynjun, myndleifar og minni. Að baki verkanna liggur töluverð rannsóknarvinna, en þær Ingunn Fjóla og Þórdís hafa undanfarna mánuði kynnt sér sögu Sláturhússins sem var starfrækt á Egilsstöðum á árunum 1958-2003. Þessi rannsóknarvinna skilar sér í nýjum verkum sem unnin eru í ýmsum formum; ljósmyndir, málverk og textílverk sem unnin eru sérstaklega fyrir sýninguna. Sýningin er fyrsta myndlistarsýningin sem opnar í Sláturhúsinu eftir gagngerar breytingar á sýningarrými hússins.

 

Ingunn Fjóla og Þórdís hafa starfað sem myndlistarmenn í rúman áratug, bæði saman undir heitinu Hugsteypan og hvor í sínu lagi. Þær eiga það sammerkt að velta fyrir sér eðli þeirra miðla sem þær vinna með, Ingunn Fjóla um málverkið annars vegar og Þórdís um ljósmyndina hins vegar. Með verkum sínum spyrja þær spurninga um þessa miðla, en einnig spurninga sem mætti yfirfara á myndlistarverk almennt; hvernig áhorfendur vinna úr sjónrænni reynslu og skynjun.