Hammondhátíðin: Nanna, Rakel og Salóme Katrín
24. April, 2025
Þessar þrjár 

Við erum ekkert eðlilega spennt fyrir upphafskvöldinu þar sem Nanna, Rakel og Salóme Katrín koma fram, fimmtudagskvöldið 24. apríl á Hótel Framtíð og byrja tónleikar klukkan 21:00
Þær koma með geggjaða hljóðfæraleikara með sér, bassaleikarann Ásu Dýradóttur, trommarann Sólrúnu Mjöll Kjartansdóttur og Tómas Jónsson hammondmeistara. Þær ætla að koma fram bæði í sitthvoru lagi og saman, galdra fyrir okkur ógleymanlega kvöldstund 

Nanna Bryndís Hilmarsdóttir er tónlistarkona úr Garðinum. Hún byrjaði snemma að semja og koma fram með eigið efni og árið 2010 stofnaði hún ásamt vinum sínum hljómsveitina Of Monsters and Men. Undanfarin ár hefur Nanna einblínt á eigið efni, en hún gaf út plötuna How to start a garden í maí 2023 við góðar undirtektir og fylgdi henni eftir með tónleikaferðalagi um Ameríku og Evrópu ásamt fjölda tónleika á Íslandi þar sem ræturnar liggja.
Salóme Katrín Magnúsdóttir er tónlistarkona frá Ísafirði. Hún flutti til Reykjavíkur haustið 2015 og hóf nám við heimspekideild HÍ en komst fljótlega að því að tónlistin ætti hug hennar allan. Hún kvaddi því háskólann og hóf tónlistarnám við Tónlistarskóla FÍH og útskrifaðist þaðan vorið 2020. Síðan þá hefur Salóme gefið út sína eigin tónlist, komið fram á ótal tónleikum bæði hérlendis og erlendis og unnið með fjölda tónlistarfólks.
Rakel Sigurðardóttir er fædd og uppalin á Akureyri. Árið 2015 flutti hún til Reykjavíkur og hélt áfram tónlistarnámi við tónlistarskóla FÍH og útskrifaðist þaðan vorið 2020. Árið 2021 gaf Rakel frá sér sína fyrstu stuttskífu, Nothing Ever Changes og ári seinna gaf hún, ásamt tónlistarkonunum Salóme Katrínu og Söru Flindt (DK), út splittskífuna While We Wait, en platan hlaut tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunana sem plata ársins. Um þessar mundir er Rakel að leggja lokahönd á sína fyrstu plötu í fullri lengd.