HAMMOND HÁTÍÐ DJÚPAVOGS
23. April, 2020 - 30. April, 2020
Hammondhátíð Djúpavogs hefur það að meginhlutverki að heiðra og kynna Hammondorgelið. Er það gert með því að fá tónlistarmenn, heimamenn og landsþekkta, til að leika listir sínar og er Hammondorgelið rauði þráðurinn í gegnum alla dagskrána.
Hátíðin var fyrst haldin árið 2006 og hefur jafnt og þétt vaxið fiskur um hrygg síðan. Hún er nú orðin ein af elstu tónlistarhátíðum landsins.
Hammondhátíð er ávallt sett á sumardaginn fyrsta sem ber alltaf upp á fimmtudegi, en það hefur jafnan verið nefnt heimakvöld á Hammondhátíð. Það hefur þó þróast á síðustu árum í austfirskt kvöld, þar sem leitast er eftir því að finna tónlistarmenn og hljómsveitir á Austurlandi til að spila í bland við heimamenn. Tónleikar eru svo á föstudags- og laugardagskvöldinu en þar er reynt að fá stærri og þekktari nöfn til að leika. Hátíðinni er svo slitið með tónleikum í Djúpavogskirkju, en jafnan er þar einsöngvari ásamt hammondleikara.