GOSPEL, SOUL OG KÓRANÁMSKEIÐ 16.-18. OKTÓBER

16. October, 2020 - 18. October, 2020

Langar þig að eyða helginni í frábærum félagskap? Syngur þú í kór eða langar þig að víkka út sjóndeildarhringinn? Læra eitthvað nýtt? Elskar þú Gospel og Soul?
Menningarstofa Fjarðabyggðar, Tónlistarmiðstöð Austurlands og sóknirnar á Norðfirði, Eskifirði og Reyðarfirði bjóða ykkur á Gospel, Soul og Kóranámskeið. Námskeiðið verður haldið í Tónlistarmiðstöð Austurlands helgina 16.-18. október og lýkur með tónleikum sem eru öllum opnir.
Leiðbeinandi er Margrét Eir og undirleikari Ingvar Alfreðsson.
Margrét Eir hefur starfað sem söngkona og leikkona á Íslandi í yfir tuttugu ár. Á þessum árum hef hún starfað með helstu tónlistarmönnum landsins, komið fram á tónleikum og sungið inn á fjölmargar plötur sem sólósöngvari og bakrödd. Margrét hefur meðal annars sungið með Sinfóníuhljómsveit Íslands og verið ein af aðalsöngkonum Frostrósa. Hún útskrifaðist frá Raddskóla Kristin Linklater árið 2007 í New York og stofnaði söngskóla árið 2009 undir nafninu MEiriskóli.
Ingvar Alfreðsson er sjálfstætt starfandi tónlistarmaður, píanóleikari, útsetjari og höfundur. Hann er með bachelor gráðu frá Berklee College of Music í Boston þar sem hann lauk námi í “Contemporary Writing and Production”. Ingvar starfaði um árabil sem kórstjóri hjá Gospelkór Árbæjarkirkju og Gospelkór Jóns Vídalíns. Hann hefur komið víða fram og leikið á stórtónleikum á borð við Frostrósir og Fiskidagstónleikana á Dalvík sem hann hefur að auki útsett frá árinu 2015.
Kennt verður föstudaginn 16.október frá klukkan 18-22, laugardaginn 17.október frá klukkan 10:00-16:00 og sunnudaginn 18.október frá klukkan 10:00-13:30. Tónleikarnir hefjast klukkan 14:00 og miðaverð er 2000 krónur.
Námskeiðið er öllum þátttakendum að kostnaðarlausu en það er nauðsynlegt að skrá sig. Skráningar fara fram á netfanginu [email protected] og lýkur á miðnætti 13 október. Haft verður samband við þátttakendur í gegnum tölvupóst með leiðbeiningum um hvernig þeir eigi að undirbúa sig fyrir námskeiðið.
Boðið verður upp á að kaupa fæði á meðan á námskeiðinu stendur gegn vægu gjaldi, nánar auglýst síðar.
Hlökkum til að sjá ykkur,
Menningarstofa Fjarðabyggðar og séra Benjamín Hrafn Böðvarsson.