Flökkusöngvar
30. June, 2021
Flökkusöngvar
Berta Dröfn Ómarsdóttir og Svanur Vilbergsson flytja ljóðaflokkinn The Divan of Moses-Ibn-Erza, op. 207
30. júní kl. 17:00 á Skriðuklaustri
Aðgangur ókeypis
The Divan of Moses-Ibn-Ezra op. 207, er ljóðaflokkur fyrir sópran og gítar. Tónskáldið Tedesco samdi flokkinn árið 1966 við ljóð eftir Moses ben Jacob ibn Ezra. Ljóðin eru 19 talsins og þeim raðað í fimm kafla. Þau eru sungin á ensku og taka um 40 mínútur í flutningi.
Svanur Vilbergsson hefur haldið einleikstónleika víða um heim, m.a. í Bandaríkjunum, Hollandi, Spáni, Englandi, Belgíu og Írlandi. Á meðal nýlegra verkefna hafa verið tónleikar á Inishowen International Guitar Festival á Írlandi, Semersooq gítarhátíðinni á Grænlandi, Sommer melbu hátíðinni í Noregi og Reykjavík Classics tónleikaröðinni í Eldborgarsal Hörpu þar sem hann varð fyrsti klassíski gítarleikarinn til að spila einleik í þeim sal. Svanur hóf gítarnám sitt hjá Torvald Gjerde, Garðari Harðarssyni og Charles Ross við Tónlistarskóla Stöðvarfjarðar og Tónlistarskólann á Egilsstöðum. Sautján ára fór hann til Englands til náms við King Edwards VI menntaskólann í Totnes þar sem gítarkennari hans var Colin Spencer og útskrifaðist þaðan af tónlistar- og líffræðibraut árið 2001. Þaðan hélt hann til Spánar og sótti þar einkatíma hjá Arnaldi Arnarssyni við Escola Luther. Árið 2002 hóf Svanur nám hjá ítalska gítarleikaranum Carlo Marchione við Tónlistarháskólann í Maastricht og lauk þaðan B.Mus. gráðu vorið 2006. Sama ár hóf hann mastersnám hjá Enno Voorhorst við Konunglega Tónlistarháskólann í Haag sem hann lauk vorið 2008. Þá hefur hann einnig sótt tíma hjá Sonju Prunnbauer í Freiburg.
Berta Dröfn Ómarsdóttir hefur komið víða við, svo sem á Gala tónleikum í Carnegie Hall í New York, í höllinni Palazzo Ricci í Montepulciano á Ítalíu, í Castel Katzenzungen í Suður Tíról. Hún kemur fram við hin ýmsu tilefni og hefur verið iðin við að skapa sér verkefni eftir að hún flutti heim frá Ítalíu. Hér á landi hefur hún m.a. haldið einsöngstónleika í Hörpu, í Salnum í Kópavogi, í Hallgrímskirkju á Óperudögum og í Hafnarborg.
Berta stofnaði kvennakórinn Grindavíkudætur í janúar 2019. Kórmeðlimir eru ungar konur í Grindavík, allar fæddar á árunum 1977-1987. Kórinn er sívaxandi: byrjaði sem 24 kvenna kór en meðlimir eru nú 33 talsins.
Sumarið 2019, stóð Berta fyrir heilli óperu-uppfærslu með öllu tilheyrandi, á Seyðisfirði. Berta var framkvæmdarstjóri uppfærslunnar og söng eitt hlutverkið í óperunni.