EINAR BRAGI SIGURÐSSON SKÁLD FRÁ ESKIFIRÐI

Tónlistarmiðstöð Austurlands

12. November, 2022

EINAR BRAGI SIGURÐSSON SKÁLD FRÁ ESKIFIRÐI
Dagskrá til minningar um skáldið og rithöfundinn Einar Braga í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði laugardaginn 12. nóvember kl. 14:00.
Fjallað verður um ævi og ritverk Einars, lesin ljóð eftir hann og flutt tónlist sem tengist þeim.
Fram koma:
Sigurborg Hilmarsdóttir, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir, Friðrik Þorvaldsson og Magnús Stefánsson.
Öll velkomin, aðgangur ókeypis.
Það er Félag ljóðaunnenda á Austurlandi sem stendur að baki viðburðinum í samstarfi við Dimmu og Menningarstofu Fjarðabyggðar.
– – –
EINAR BRAGI
Einar Bragi fæddist í Skálholti á Eskifirði 7. apríl 1921. Hann ólst upp á Eskifirði, varð stúdent frá M.A. 1944 og stundaði nám í bókmenntum, listasögu og leikhússögu við Háskólann í Lundi 1945–1947 og við Stokkhólmsháskóla 1950–1953. Hann stundaði ýmis störf, meðal annars síldarvinnu á Siglufirði og Raufarhöfn, leiðsögumennsku erlendis, blaðamennsku á Þjóðviljanum og móðurmálskennslu í ýmsum skólum á gagnfræðastigi með hléum frá 1944–1987. Einar gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir rithöfunda. Hann stofnaði tímaritið Birting eldra 1953 og gaf það út í tvö ár. Einnig var hann ábyrgðar-maður Birtings yngra 1955–1968 og ritstjóri ásamt Jóni Óskari, Thor Vilhjálmssyni og Herði Ágústssyni. Einar Bragi lést í Reykjavík í mars 2005.
Fyrstu ljóðabækur Einars Braga, Eitt kvöld í júní (1950) og Svanur á báru (1952), komu út þegar hann bjó í Svíþjóð en eftir heimkomu sína, 1953, sendi hann frá sér þá þriðju, Gestaboð um nótt. Hann gaf út fjölda ljóðabóka og endurminningar sínar auk þess sem hann var ötull þýðandi erlendra skáldsagna og ljóða, þar á meðal eftir grænlensk og samísk samtímaskáld. Einnig þýddi hann heildarsafn leikrita Augusts Strindbergs og Henriks Ibsens. Þá skrifaði Einar Bragi í fimm bindum ritverkið Eskju (1971–1986), sögu heimabyggðar sinnar sem byggir á mjög umfangsmikilli heimildaleit og ennfremur þriggja binda verk með sögulegum fróðleik sem nefnist Þá var öldin önnur (1973–1975).
Ljóðabækur eftir Einar Braga hafa verið þýddar á önnur mál og einstök ljóð hafa birst í safnritum á fjölmörgum málum. Árið 2021 kom út á vegum bókaútgáfunnar Dimmu veglegt tveggja binda safn frumsaminna og þýddra ljóða skáldsins með greinargóðum inngangi eftir Ástráð Eysteinsson bókmenntafræðing.
Einar Bragi var kjörinn heiðursborgari Eskifjarðar 1986.