Djúpsins ró

Tónlistarmiðstöð Austurlands

16. October, 2022

DJÚPSINS RÓ
Berta Dröfn Ómarsdóttir, sópran, og Svanur Vilbergsson, gítar, í Tónlistarmiðstöðin Eskifirði 16. október kl. 16:00.
Á efnisskránni eru íslensk sönglög m.a. eftir Tryggva M. Baldvinsson, Þorvald Gylfason, Jón Ásgeirsson og Huga Guðmundsson ásamt verkum eftir Caccini og Castelnuovo-Tedesco.
Berta Dröfn og Svanur hafa m.a. komið fram saman á Óperudögum í Reykjavík, Listahátíð Samúels Jónssonar, á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði og á Skriðuklaustri, þar sem þau fluttu nýlega ljóðaflokkinn The Divan of Moses Ibn Esra eftir Mario Castelnuovo Tedesco í heild sinni.
Berta og Svanur eru forsvarsmenn listamannafélagsins Mela sem staðið hefur að fjölmörgum frumflutningum á nýrri tónlist og ber þar helst að nefna óperuna Ravens Kiss eftir tónskáldið Evan Fein sem sett var upp á Seyðisfirði 2019 og frumflutning á verkinu Nóttin, komin til að vera eftir Friðrik Margrétar – Guðmundsson við ljóð Ingunnar Snædal.
Miðaverð 3000 kr. / 2500 kr. fyrir eldri borgara.
Nánar um listafólkið:
Berta Dröfn Ómarsdóttir hefur komið víða við, svo sem á Gala tónleikum í Carnegie Hall í New York, í höllinni Palazzo Ricci í Montepulciano á Ítalíu, í Castel Katzenzungen í Suður Tíról. Hún kemur fram við hin ýmsu tilefni og hefur verið iðin við að skapa sér verkefni eftir að hún flutti heim frá Ítalíu. Hér á landi hefur hún m.a. haldið einsöngstónleika í Hörpu, í Salnum í Kópavogi, í Hallgrímskirkju á Óperudögum og í Hafnarborg. Berta stofnaði kvennakórinn Grindavíkudætur í janúar 2019. Kórmeðlimir eru ungar konur í Grindavík, allar fæddar á árunum 1977-1987. Kórinn er sívaxandi: byrjaði sem 24 kvenna kór en meðlimir eru nú 33 talsins. Sumarið 2019, stóð Berta fyrir heilli óperu-uppfærslu með öllu tilheyrandi, á Seyðisfirði. Berta var framkvæmdarstjóri uppfærslunnar og söng eitt hlutverkið í óperunni.
Svanur Vilbergsson hefur haldið einleikstónleika víða um heim, m.a. í Bandarikjunum, Hollandi, Spáni, Englandi, Belgíu og Írlandi. Á meðal nýlegra verkefna hafa verið einleikstónleikar á gítarhátíðinni Grand Nordic Festival í Kaupmannahöfn, útgáfutónleikar Hins Íslenska Gítartríós í Norðurljósasal Hörpu 2020 og einleikur með Sinfóníhljómsveit Austurlands í Concierto de Aranjuez eftir J. Rodrigo 12. september síðastliðinn. Það síðastnefnda fékk meðal annars þessa umfjöllun: „Guðmundur Óli Gunnarsson stjórnaði hljómsveitinni af miklu öryggi og Svanur Vilbergsson lék gítarkonsert Rodrigo af dásamlegri fegurð, innlifun og leikni.“ Spænska tónskáldið Mateu Malondra Flaquer hefur tileinkað honum verk fyrir sóló gítar og í febrúar 2014 frumflutti hann í Hörpu, ásamt Kammersveit Reykjavíkur, gítarkonsertinn Halcyon Days sem saminn var af tónskáldinu Oliver Kentish og tileinkaður Svani. Árið 2011 kom út fyrsti einleiksdiskur Svans sem kallast Four Works og hefur honum verið einkar vel tekið. Svanur er meðlimur í Íslenska Gítartríóinu ,sem gaf út diskinn Vistas haustið 2020, og Stirni Ensemble sem sem hefur sérhæft sig í flutningi á Íslenskri samtímatónlist. Svanur starfar sem aðjúnkt við Listaháskóla Íslands og kennir einnig gítarleik við Menntaskólann í tónlist.