Daníel Hjálmtýsson: Lög Leonard Cohen 

11. December, 2021 - 18. December, 2021

Daníel Hjálmtýsson: Lög Leonard Cohen
Laugardagana 11. og 18. desember kl. 20:00
Fáskrúðsfjarðarkirkja
Miðasala hefst 8. október kl. 10.00 á www.tix.is

Daníel Hjálmtýsson leikur lög Leonard Cohen í Fáskrúðsfjarðarkirkju dagana 11. og 18. desember nk.

Daníel hefur allt frá árinu 2017 staðið fyrir tónleikum í minningu kanadíska tónlistarmannsins Leonard Cohen við vægast sagt frábærar undirtektir.
Hafa tónleikarnir verið eins fjölbreyttir og þeir hafa verið margir en þetta hófst allt í Stúdíó 12 á Rás 2 og Græna Hattinum í febrúar 2017. Café Rósenberg heitinn tók svo við þar sem eitt kvöld fjölfaldaðist í seríu vegna mikillar aðsóknar og eftirspurnar. Þá ber einnig að nefna stórtónleika Daníels og hljómsveitar hans að sumri 2018 og á aðventu 2018 og 2019 í IÐNÓ i Reykjavík, þar sem lög Leonard Cohen voru flutt í bland við lög Nick Cave og jólalög. Varð Daníel þá sá fyrsti í heiminum til að flytja seinustu plötu Leonard Cohen, You Want It Darker, með hljómsveit og kór, lifandi á sviði í IÐNÓ sumarið 2018.

Daníel hefur nú ákveðið að setjast niður í fyrsta sinn í Fáskrúðsfjarðarkirkju á aðventunni 2021, lækka ljósin og tendra nokkur kerti og flytja þorrann af bestu lögum Leonard Cohen, einn og óstuddur. Ekki er þó ólíklegt að einhverjir gestir komi við og valin jólalög fylgi með.

Daníel Hjálmtýsson hefur vakið mikla lukku fyrir túlkun sína á lögum Leonard Cohen, Nick Cave og fleiri en fyrst og fremst fyrir sína eigin frumsömdu tónlist. Gaf Daníel þá út þröngskífu í nóvember 2020 og hefur gefið út handfylli smáskífa frá árinu 2018. Vinnur hann nú ásamt hljómsveit sinni að fyrstu breiðskífu sinni sem væntanleg er á næsta ári. Hefur tónlist Daníels þá hlotið lof bandaríska tónlistarmannsins Mark Lanegan og bandarísku útvarpstöðvarinnar KEXP í Seattle. Myndband við nýjasta lag Daníels, Back to Bed, var tekið upp á Austurlandi í sumar en von er á nýju lagi frá Daníel í nóvember á þessu ári.