Anya Shaddock og Kári Kresfelder í Tónspili

16. November, 2024

Tónleikaröðin „Strengir“ í samstarfi Brján, Menningarstofu, Fjarðabyggðar og SÚN kynnir:
Anya Shaddock og Kári Kresfelder.
Tvö af efnilegustu austfirðingunum koma fram í Tónspili laugardaginn 16. nóvember kl. 20:00, húsið opnar 19:30.
*****
Söngkonan og lagahöfundurinn Anya Shaddock, fædd 2002, er uppalin á Fáskrúðsfirði þar sem hún stundaði tónlistarnám frá unga aldri. Áhersla hennar var á gítar, píanó og söng. Tónlistarhæfileikar hennar komu snemma í ljós. Þegar hún var 14 ára keppti hún á Samfés fyrir skólann sinn þar sem hún flutti frumsamið lag. Viku síðar kom hún fram á Nótunni og lék lagið Clair de Lune eftir Debussy. Hún vann báðar keppnirnar og í kjölfarið kom hún fram á ýmsum tónlistarviðburðum eins og Bræðslunni, Tónaflóði Rásar 2 og Idolinu. Anya flutti til Reykjavíkur árið 2018 til að stunda nám við Menntaskólann í Tónlist og útskrifaðist þaðan með gráðu í rytmískum söng árið 2023. Hún hefur undirritað samning við IcelandSync og gaf út sína fyrstu breiðskífu – Inn í borgina í júní síðastliðnum.
****
Kári Kresfelder er norðfirðingur sem gaf út sína fyrstu LP „Words“ fyrir rúmu ári síðan og nú síðast singulinn „Absurd Alienation“. Kári ætlar að flytja nokkur af rólegri lögunum sínum með hjálp Stöðfirðingsins Jónatans Emils sem spilar á kassagítar og cajon. Kári mun hinsvegar spila á mandólín, banjó, munnhörpu, gítar og syngja (ekki allt á sama tíma). Kári mun flytja nokkur lög af fyrstu plötunni sinni “Words” en síðan verður líka eitthvað óútgefið efni.
Öll velkomin meðan húsrúm leyfir.