Vaxtarrýmið Austanátt er 8 vikna ferli fyrir einstaklinga eða teymi sem vilja þróa áfram hugmyndir sem skapa verðmæti á Austurlandi. Í vaxtarrýminu gefst hugmyndasmiðum færi á að tengjast öðrum frumkvöðlum, fá ráðgjöf frá reyndum sérfræðingum og fræðslu s.s. um markaðssetningu, hönnunarhugsun, fjármögnun og önnur hagnýt atriði til nýsköpunar.

Allskonar hugmyndir

Austanátt er opin fyrir allskonar hugmyndum. Þær geta falið í sér að stofna fyrirtæki eða verið unnar af óhagnaðardrifnum samtökum, framkvæmdar innan rótgróinna stofnana eða verið nýir sprotar. Verðmætin sem verkefnin skapa geta verið í formi sjálfbærni, verið efnahagslegs eða samfélagslegs eðlis. Verkefni sem hafa áhuga á að vinna á forsendum hringrásarhagkerfisins eru sérstaklega hvött til að sækja um.

Allt að 10 hugmyndir verða valdar til að taka þátt í Austanátt árið 2024.

Fyrirkomulag

Vaxtarrýmið fer fram frá byrjun september til loka október 2024. Fræðsla og ráðgjöf fer fram reglulega yfir tímabilið í gegnum netið. Þátttakendur hittast þrisvar yfir tímabilið í heilan dag.

Þátttaka í Austanátt er þeim verkefnum sem valin verða að kostnaðarlausu. Í ferlinu felst ekki fjárhagslegur styrkur né er um keppni að ræða.

Afrakstur

Markmið Austanáttar er að gefa hugmyndum færi á að vaxa og dafna og færa þær nær því að verða að veruleika. Stuðningurinn felst í tengslaneti, hvatningu, ráðgjöf og fræðslu og umfram allt aðhaldi til að láta reyna á hugmyndirnar sem þátttakendur ganga með í maganum. Á meðan á ferlinu stendur verða gerð myndbönd um hvert verkefni sem frumsýnd verða að Austanáttinni lokinni. Myndböndin geta nýst við kynningu á verkefnunum, s.s. til að sækja fjármagn eða markaðsetja afurð þess og útkomu.

Umsóknir

Opnað hefur verið fyrir umsóknir!

Sæktu um fyrir 26. ágúst 2024.

Sækja um

Nánari upplýsingar

Arnar Sigurðsson

[email protected]

Aðstandendur Austanáttar