Um hátíðina
Dagar myrkurs er sameiginleg byggðahátíð allra íbúa á Austurlandi með það að markmiði að hvetja til samveru íbúa. Hátíðin fer fram í byrjun vetrar og hefur sterka tengingu við hátíðir sem haldnar hafa verið á þeim tíma, frá fornu fari. Hátíðin er fyrst og fremst hugsuð sem hátíð íbúa en öllum sem áhuga hafa er velkomið að taka þátt.
Hátíðin stendur yfir í heila viku í lok október og/eða byrjun nóvember. Hún er haldin stuttu eftir eða í kringum fyrsta vetrardag (sem er alltaf á tímabilinu 21.-28. október) og hrekkjavakan, 31. október, er innan hátíðarinnar.
Á þessum tíma héldu norrænir menn til forna miklar samkomu- og veisluhátíðir sem nefndust veturnætur og dísablót. Þessi tími var tími umskipta, sumar breyttist í vetur og þá var hægt að skynja handanheima og jafnvel sjá drauga og álfa. Með kristnitökunni færðust hátíðarhöldin yfir á 1. nóvember og fengu nafnið allraheilagramessa. Annars staðar, svo sem á Írlandi og í Skotlandi, snérust hátíðir í byrjun vetrar um að minnast þeirra sem látnir voru. Seinna breiddust þær hátíðir til Ameríku með innflytjendum og eru í dag það sem við þekkjum sem hrekkjavaka.
Dagar myrkurs eru nútíma útgáfa af hátíðarhöldum í vetrarbyrjun. Með þeim þökkum við fyrir sumarið og heilsum vetrinum. Við upphefjum myrkrið, hið yfirnáttúrulega, rómantík og gamla siði með margvíslegum hætti. Íbúar eru virkjaðir til þátttöku og hvatinn að viðburðum og samveru kemur fyrst fremst frá þeim.