Hreyfing í vatni, mótun forma
10. August, 2024 - 11. August, 2024
Laugardaginn 10. og sunnudaginn 11. ágúst frá 10:30 til 15:30 er fólki á öllum aldri boðið að koma við í Gömlu netagerðinni til að gera vatnstilraunir með Simon Charter sérfræðingi í mótun flæðiforma og rannsóknum á hreyfingu vatns, Erlu Reynisdóttur eurythmykennari og Ráðhildi Ingadóttur myndlistarmanni.
Hringiðan er ein af grunnhreyfingum alheimsins. Hana má sjá í formum skelja og kuðunga, vexti plantna, vetrarbrautinni, veðurkerfum, loftinu í kringum okkur og í vatninu.
Í gömlu netagerðinni skoðum við þessa hreyfingu í vatni þar sem við notum vatn plastfötur, krukkur, sívalninga, blek og ýmislegt fleira til að kanna hreyfingu vatns í kyrrstöðu.
Mótum vatnsrásir úr leir til að skoða vatn á hreyfingu og gerum tilraunir til að sjá hvernig hreyfing vatnsins hefur áhrif á form skelja og kuðunga, og hvernig vatnið mótar farveg sinn.
Teiknaðir verða spíralar, iður, öldur og hrynjandi með litblýöntum, kolum, og vatnslitum.