Styrkleikarnir á Egilsstöðum
31. August, 2024
Krabbameinsfélagið er í samstarfi við Global Relay for Life, samtök í eigu ameríska krabbameinsfélagsins, til þess að geta haldið viðburðinn Relay for Life hér á landi. Viðburðurinn hefur fengið íslenska nafnið Styrkleikarnir sem er orðaleikur sem minnir okkur á styrkinn sem við finnum í samstöðunni, við það að ganga saman til að standa með fólki sem hefur verið snert af krabbameinum. Um er að ræða alþjóðlegan viðburð sem fer árlega fram á yfir 5000 mismunandi stöðum í yfir 30 löndum um allan heim. Hátt í 10 milljónir taka þátt í viðburðinum á hverju ári og er sá hópur sífellt að stækka.
Styrkleikarnir er sólarhringsviðburður sem er táknrænn fyrir að það fæst engin hvíld frá krabbameini, fólk sem tekst á við krabbamein gerir það allan sólarhringinn. Viðburðurinn er opinn öllum sem vilja sýna stuðning í verki. Fjölskyldur, fyrirtæki, íþróttafélög, félagasamtök eða aðrir skrá sig sem lið og vinna saman að því að hafa fulltrúa á hreyfingu (ganga, hlaupa, sitja í kerru o.s.frv.) með boðhlaupskefli allan sólarhringinn. Þetta er ekki keppni heldur snúast Styrkleikarnir um samstöðu, samveru og samtakamátt liðanna í að styðja við, heiðra eða minnast einstaklinga sem hafa fengið krabbamein. Styrkleikarnir eru haldnir til að sýna stuðning, safna fé til rannsókna á krabbameinum og til þess að veita krabbameinsgreindum ráðgjöf og þjónustu.
Viðburðurinn er alltaf skipulagður í nærsamfélagi og undirbúinn og framkvæmdur að langmestu leyti af sjálfboðaliðum