Sjálfbærnieldhúsið

Hallormsstaðaskóli

20. May, 2023

Verið velkomin í Sjálfbærnieldhúsið í Hallormsstaðaskóla – lifandi vettvang nýsköpunar.
Hvað er sjálfbær og heilsusamlegur matur? Hvernig getur nærsamfélagið nýtt auðlindir sínar og þekkingu til að stuðla að breytingum í þá átt?
Laugardaginn 20. maí fer fram viðburður í Tilraunaeldhúsi Hallormstaðaskóla í samstarfi við þverfræðilega rannsóknarverkefnið “Sjálfbært heilsusamlegt mataræði: vísindi sem vegvísir í átt að sjálfbærri framtíð”.  Viðburðurinn fer fram milli kl. 10 – 12 og 13 – 17,  nánari dagskrá tilkynnt síðar.
Dagskrá dagins verður tvískipt þar sem boðið er til lifandi samtals og erinda frá rannsóknarhópi verkefnisins þar sem þeir kynna og ræða stöðu verkefnisins.
Seinni hluti er Sjálfbærnieldhúsið þar sem áhugasömum heimamönnum verður boðið að skrá sig til þátttöku í rannsókninni og taka þátt í verklegum hluta þess. Elduð verður máltíð úr staðbundnu hráefni ásamt því að eiga samtal um sjálfbæra og heilsusamlega matarhætti. Markmiðið er að læra hvert af öðru, prófa okkur áfram með hráefni og fá nýjar hugmyndir og innblástur inn í okkar daglega líf og starf.
Sjálfbærnieldhúsið í Hallormsstaðaskóla í samstarfi við HÍ. Viðburðurinn er styrktur af Uppbyggingarsjóði Austurlands og rannsóknarverkefnið er styrkt af Rannís.
Kynning á rannsóknarhlutanum fyrir þátttakendur í Sjálfbærnieldhúsinu
Sjálfbærnieldhúsið er í senn vettvangur til að deila og skapa þekkingu.
Þátttakendur í verklega hluta viðburðarins eru (að fengnu skriflegu samþykki) um leið þátttakendur í rannsókninni “Sjálfbært heilsusamlegt mataræði: Vísindi sem vegvísir í átt að sjálfbærri framtíð”.
Í því felst að rannsakendur munu taka rannsóknarnótur, myndir og myndbönd meðan á viðburði stendur, auk rannsóknarviðtala í kjölfar viðburðarins (valkvætt).
Þessi hluti rannsóknarinnar snýr m.a. að því hvernig vísindalegum niðurstöðum er deilt, hvernig fólk nýtir sér þær í verki og setur í samhengi við eigin aðstæður og þekkingu.
Gögnin sem aflað er verða nýtt í fræðilegum tilgangi í samræmi við siðareglur Háskóla Íslands. Farið verður með þau sem trúnaðarupplýsingar og nafnleyndar gætt.
Athugið þó að myndefni verður nýtt til miðlunar á samfélagsmiðlum, í fjölmiðlum og á heimasíðu verkefnisins.
Fyrir nánari upplýsingar, hafið samband við Auði Viðarsdóttur, doktorsnema í þjóðfræði: s. 888 2227, tölvupóstur: [email protected].