2×2 Rýmisskynjun: Ævintýraferðir
Stríðsárasafnið Reyðarfirði
15. July, 2022 - 16. July, 2022
Verkið leikur sér með form leiðsagðra kynnisferða líkt og fjórhjólaferða, jöklaskoðana og kayakferða þar sem áhorfendur sitja lítinn fyrirlestur um þætti rýmisskynjunar, klæða sig í galla, og fylgja síðan leiddri rýmisskynjun með fókuspunktum, hugleiðingum og sjálfstæðum verkefnum.
Listahópurinn Kunningjar samanstendur af Hallveigu Kristínu Eiríksdóttur og Arnari Geiri Gústafssyni. Þau eru bæði stofnmeðlimir sviðslistahópsins CGFC og hafa starfað innan hans síðan 2015. Hópurinn Kunningjar er stofnaður vegna sameiginlegs áhuga á rýmum og rýmisskynjun í nærumhverfi okkar og leitast við að kanna snertifleti og skapa þráð á milli sviðslistar, félagsfræði og borgarskipulagsfræði. ‘2×2 Rýmisskynjun: Ævintýraferðir’ er þeirra annað verk sem Kunningjar.
Arnar er með BA-gráðu í félagsfræði, MSc-gráðu í borgarskipulagsfræðum og diplómu í sjónlistum. Undanfarin ár hefur hann stundað starfsnám hjá UN-HABITAT, starfað sem sviðshöfundur með CGFC, borgarskipulagssérfræðingur hjá Skipulagsstofnun og við gerð myndlistar- og vídjóverka.