LAND – bókverkasýning

Skriðuklaustur

2. April, 2022 - 1. May, 2022

Sýningin opnar laugardaginn 2.april og er opin alla daga til 1.maí á opnunartíma safnsins 11-17

LAND er sýning á bókverkum ellefu listamanna í menningarsetrinu Skriðuklaustri. Að sýningunni stendur listahópurinn ARKIR sem starfað hefur allt frá árinu 1998 en meðlimir hópsins sinna öllu jafna margvíslegri listsköpun á sviði málara- og grafíklistar, textíllistar, ritlistar, myndlýsinga og hönnunar. Frá árinu 2005 hafa ARKIR haldið fjölda bókverkasýninga hérlendis og erlendis. Verk á sýningunni hafa mörg hver verið sýnd víða um heim en að þessu sinni hafa verkin verið valin sérstaklega með sýningarrými Skriðuklausturs í huga.

Bókverk eru í eðli sínu marglaga og fjölbreytt en um leið aðgengileg og kunnugleg að formi til. Hver bók er heill heimur út af fyrir sig: bókverkið sem safn mynda og texta og bókverkið sem þrívítt tjáningarform. Verkin á sýningunni eru til þess fallin að vekja spurningar og forvitni, þar sem form, efni og innihald lokka áhorfandann inn í einstakan heim hvers verks fyrir sig. Í fjölbreyttum bókverkum skoða listamennirnir lönd og mæri, texta og tungumál, náttúru og menningarheima frá ólíkum sjónarhornum.

Heiti sýningarinnar, LAND, hefur víða og fjölþætta skírskotun sem snertir hvert mannsbarn. Ef til vill eru fá orð merkingarþrungnari, nú þegar við blasa umbrotatímar í náttúru og mannheimum. Landið er grundvöllur lífsins, jörðin sem við ræktum og höfum undir fótum, landið er fósturjörð og fjarlæg lönd, undirstaða sjálfsmyndar einstaklinga og þjóða.

Nánari upplýsingar um ARKIR og sýningarverkefni hópsins má finna á vefnum www.arkir.art.