Johan F Karlsson / Leið í gegnum sólarstein
Skaftfell Art Center
11. February, 2022 - 12. March, 2022
Opnun föstudaginn 11. febrúar, kl. 18:00-20:00 í sýningarsal Skaftfells.
Opnunin er hluti af listahátíðinni List í Ljósi og sýningin verður opin til kl. 22:00 á 11./12. febrúar.
Leiðsögn með listamanninum fer fram laugardaginn 12. mars, kl. 15:00 (á ensku). Sýningin stendur til 12. mars. Aðgangur er ókeypis og gengið í gegnum bistróið á 1. hæð.
Opnunartími: Mán/fim/fös 12-14:00 og 17-20:00; þri/mið 12-20:00; lau/sun 17-20:00.
Sýningin Leið í gegnum sólarstein byggist á listrænum rannsóknum á eiginleikum, sögu og notkun íslensks silfurbergs, sem er kristall og vel þekktur fyrir framlag sitt innan ljósfræðinnar og í tengslum við tilgátur um notkun hans sem siglingartæki. Með verkunum er sett fram tilraunakennd nálgun við viðfangsefnið; þau eru innblásin af ljósinu sem er einkennandi fyrir kristallinn og tvíbrots-eiginleika hans sem skapar tvöfalda mynd, skuggamynd. Skuggamyndin gerir manni kleift að ímynda sér aðra vídd auk þess að tengja hana hugmyndinni um „tvíhyggju“ og gefur þannig í skyn tvenns konar nærveru eða tvo staði á sama tíma. Að vissu leyti getur upplifunin um tvöfalda mynd virkjað líkamsvitund og fært manni undirvitund sem tengist veruleika sem er handan tíma og rúms og leiðir mann inn í aðra heima. Sýningin getur þannig í heild sinni verið hugsuð sem ferðalag um tvær samliggjandi leiðir þar sem við finnum sameiginleg sambönd innan hins efnislega og óefnislega, línur og yfirborð, ljós og myrkur.
Johan F Karlsson (SE) dvelur í gestavinnustofu Skaftfells í janúar og febrúar 2022 og fékk til þess styrk frá Norrænu menningargáttinni. Við dvöl sína hefur hann gert tilraunir, út frá listrænu sjónarmiði, með náttúrlegu skautunar- og tvíbrotseiginleika íslenska silfurbergsins. Með sýningunni og áframhaldandi rannsóknum er markmiðið að draga fram að mörgu leyti glataða þekkingu um það hvernig mennirnir hafa sigrast á umhverfi sínu, með því að nota forna siglingatækni sem hverfist um rýmisskynjun og afstöðu gagnvart skilyrðum ljóss.
Í myndlist sinni fæst Johan við ljósmyndun, skúlptúr- og vídeó innsetningar, rýmisinngrip og gjörninga. Hann vinnur oft með rýmistengd verk sem lúta að tíma og rúmi, t.d. skilyrði ljóss og áhrif þess á skynjun mannsins á tíma og rúm og getu líkamans til að öðlast skilning gegnum skynjun á umhverfiþáttum, eins og ljósi, hita og hljóði. Í list sinn leggur Johan m.a. áherslu á hugboð um nærveru og skynjun rýmis í tengslum við hvernig við staðsetjum okkur. Þetta felur í sér rannsókn á mismunandi leiðsögutækni, átök mannsins við að öðlast betri þekkingu, sérstaklega við kortagerð og könnun, og hið andstæða: að
treysta á hið óþekkta og möguleika þess. Listrænt séð, er markmið Johans að rannsaka aðferðir til að einfalda, sérstaklega í tengslum við smækkun efnis, hverfult eða „óefnisleg“ fyrirbæri eins og ljós/skugga, og jafnvel það sem gæti kallast ekkert. Þetta felur oft í sér að skapa landslag í sínum víðasta skilningi.
Johan F Karlsson (f. 1984) býr og starfar í Malmö, Svíþjóð. Hann hlaut BA gráðu í menningu og listum frá Novia University of Applied Sciences í Pietarsaari, Finnlandi, og MA gráðu í ljósmyndun frá Aalto University í Helsinki, Finnlandi. Johan hefur sýnt víða og tekið bæði þátt í samsýningum og einkasýningum í Svíþjóð, Finnlandi og Sviss, t.d. Gallery CC í Malmö, Gallery Huuto í Helsinki, the Photographic Center Peri í Turku (FI),
the Northern Photographic Center í Oulu (FI) og Erfrischungsraum í Lucerne (CH).
https://skaftfell.is/johan-f-karlsson-leid-i-gegnum-solarstein/