Jöklar í bókmenntum – Hornafjörður
28. April, 2017 - 30. April, 2017
Ráðstefna á Höfn í Hornafirði undir yfirskriftinni Jöklar í bókmenntum, listum og lífinu. Fyrir ráðstefnunni stendur Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Höfn, í samvinnu við Náttúrustofu Suðausturlands og Menningarmiðstöð Hornafjarðar. Til ráðstefnunnar er boðið rithöfundum og fræðimönnum á sviði bókmennta, myndlistar og jöklafræða. Meðal gesta verða rithöfundarnir Steinunn Sigurðardóttir, Linda Vilhjálmsdóttir og Ófeigur Sigurðsson sem öll hafa fjallað um jökla í skrifum sínum.
Í tengslum við ráðstefnuna verða settar upp sýningar af ýmsu tagi; í Listasafni Svavars Guðnasonar á Höfn verður málverkasýning á verkum í eigu safnsins, auk nokkurra verka sem koma frá Listasafni Íslands. Í Nýheimum verður ljósmynda- og kortasýning, handverkssýning, sýning á teikningum barna, sem og sýning á heimildamyndinni Jöklaland eftir Gunnlaug Þór Pálsson. Ráðstefnan er styrkt af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) og Vinum Vatnajökuls. Allir eru velkomnir að taka þátt: hlýða á fyrirlestra og skoða sýningar. Ef fólk vill gera sér helgarferð austur af þessu tilefni væri ráð að panta gistingu sem fyrst.
Meðfylgjandi er ráðstefnudagskrá og einnig kynningar á fyrirlesurum og fyrirlestrum þeirra. Allar nánari upplýsingar má fá hjá Soffíu Auði Birgisdóttur: sími 4708042 og 8482003, netfang: [email protected]