Allir skipta máli

„Hérna skiptir hver og einn máli, það munar um hverja manneskju og maður upplifir einhvern veginn að maður sé meira virði hér en í stærra samfélagi,“ segir Helga Elísabet Beck Guðlaugsdóttir en hún flutti ásamt manni sínum, Kristni Guðbrandssyni, og tveimur börnum frá Seltjarnarnesi til Reyðarfjarðar árið 2015.

Helga er fædd í Reykjavík árið 1975 en á ættir að rekja austur. Foreldrar hennar eru Reyðfirðingar og þar á hún marga ættingja. „Við fluttum austur þegar ég var í tíunda bekk og og við settumst að í Fellabæ en fyrir það kom ég mjög reglulega austur og dvaldi hjá afa og ömmu á Reyðarfirði og það var draumurinn minn að flytja þangað. Mér fannst Reyðarfjörður besti staður í heimi – hálfgert himnaríki.“

Árið 2015 lét hún drauminn rætast eftir að hafa búið á Seltjarnarnesi í mörg ár. „Við áttum hús á Seltjarnarnesi, vorum svona týpískt millistéttarfólk með tvö börn. Um hver mánaðarmót stóðum við á núlli og við fórum að hugsa um hvað við gætum gert til að gera meira úr því sem við höfðum.

Kristinn, maðurinn minn, fór að gamni sínu að senda mér fasteignaauglýsingar frá Selfossi, Ísafirði, Siglufirði og víðar. Þetta byrjaði sem grín en svo komumst við að því að við ættum að flytja út á land,“ segir Helga. Þau fóru að horfa austur þar sem hún átti foreldra á Egilsstöðum og ættingja, sem fyrr segir, á Reyðarfirði.

„Kristinn gat fengið vinnu hjá slökkviliðinu í Fjarðabyggð og ég hafði ekki áhyggjur af sjálfri mér,“ segir Helga sem vinnur hjá sveitarfélaginu sem deildarstjóri búsetu. „Við sáum hús sem okkur leist vel á í fasteignaauglýsingu, keyptum það óséð og erum alsæl með það.“

Og hefur Reyðarfjörður staðist væntingar?

„Já, heldur betur,“ segir Helga sem er talsvert virkari í félagslífinu á Reyðarfirði en hún var á Seltjarnarnesi. Hún syngur í kór, stundar skíði og fjallgöngur og spilar í pönkhljómsveit. „Hérna skiptir hver og einn máli,“ segir hún. „Það munar um hverja manneskju og maður upplifir einhvern veginn að maður sé meira virði hér en í stærra samfélagi.“

Texti : Jón Knútur Ásmundsson.

Myndir: Daniel Byström (efst), Rhombie Sandoval og María Hjálmarsdóttir. 

Deila
Lesa nánar